<body><script type="text/javascript"> function setAttributeOnload(object, attribute, val) { if(window.addEventListener) { window.addEventListener('load', function(){ object[attribute] = val; }, false); } else { window.attachEvent('onload', function(){ object[attribute] = val; }); } } </script> <div id="navbar-iframe-container"></div> <script type="text/javascript" src="https://apis.google.com/js/plusone.js"></script> <script type="text/javascript"> gapi.load("gapi.iframes:gapi.iframes.style.bubble", function() { if (gapi.iframes && gapi.iframes.getContext) { gapi.iframes.getContext().openChild({ url: 'https://www.blogger.com/navbar.g?targetBlogID\x3d6430580\x26blogName\x3dg%C3%B3%C3%B0saga\x26publishMode\x3dPUBLISH_MODE_BLOGSPOT\x26navbarType\x3dBLUE\x26layoutType\x3dCLASSIC\x26searchRoot\x3dhttps://godsaga.blogspot.com/search\x26blogLocale\x3dis_IS\x26v\x3d2\x26homepageUrl\x3dhttps://godsaga.blogspot.com/\x26vt\x3d-9041854833780899087', where: document.getElementById("navbar-iframe-container"), id: "navbar-iframe" }); } }); </script>

föstudagur, júní 6

Ómæj!

Þessa dagana gegni ég starfi afgreiðslustúlku í gluggatjaldaverslun í Faxafeni. Ég uni mér vel þar, enda hef ég tækifæri til að rækta miðaldra konuna innra með mér, öfugt við barnið sem hefur lagst í dvala. Yngsta konan sem vinnur með mér er 47 ára svo ég lækka meðalaldurinn umtalsvert í versluninni.

Dömurnar sem vinna með mér eru hver annari skemmtilegri en þó örlítið ruglaðar, það er að segja, þær ruglast stundum og segja ,,viltu raða í þurrkarann" í stað ,,viltu þurrka af" eða gera eins og ég og snúast í nokkra hringi áður en þær muna hvað það var sem þær voru að fara að gera. Þær hafa einnig, líkt og ég, unun af því að hafa hreint og fínt í kringum sig og sem dæmi má nefna eina sem hefur svo skemmtilegan enskan hreim (ekki breskan); hún vaknaði kl. 6 á þriðjudagsmorgni til að vera viss um að ná að þrífa ísskápinn sinn áður en hún mætti í vinnuna kl. 13:00 því hún átti von á gestum næstkomandi laugardag!!!

Ég er í stuttu máli mjög hamingjusöm í sumarjobbinu, enda ekki við öðru að búast þar sem ég fæ að virða fyrir mér fjölskrúðug gardínuefni alla daga og það er alltaf nóg af nammi í skúffunni.

Nóg um það í bili. Ég er orðin ansi utan við mig þar sem ég hef verið nokkuð dugleg í dagdraumunum (Þegar ég vinn í lottó ætla ég ...). Um daginn fór ég í Bónus eftir vinnu og ákvað að reiða hjólið mitt upp verstu brekkuna á leiðinni heim, þar sem ég er enn sem komið er ekki í standi til krafthjólreiða. Ég lét hugan reika allhressilega alla leiðina og var orðin svo utan við mig að ég var komin við hliðina á sjálfri mér.

Þegar ég var loks komin á leiðarenda opnaði ég hjólageymsluna, lagði frá mér pokann og ætlaði að læsa hjólinu mínu. Ég var ekki lengi að átta mig á því að ég þyrfti þess ekki þar sem ég legg alltaf drossíunni í læstri hjólageymslu. En viti menn; í þann mund sem ég ætlaði að sækja lyklana mína í vasann áttaði ég mig á því að þeir voru ekki á sínum stað. Við tóku þó nokkrar angistarfullar mínútur þar sem ég leitaði ítrekað í vösunum og hvolfdi úr töskunni og pokanum í árangurslausri leit að lyklunum.

Þegar ég hafði áttað mig á því að ég hafði hvergi lykla í fórum mínum var ég farin að halda að ég hefði misst þá á leiðinni heim. Ég var ansi spæld, enda gat ég hugsað mér margt betra við tímann að gera en að leita að lyklum við Miklubrautina og ekki var skárra að ég átti ekki von á Jóhanni fyrr en eftir tvo tíma til að hleypa mér inn.

Ég herti upp hugann og lagði pokann minn á bak við hurð. Þegar ég var að fara að reiða hjólið mitt út á nýjan leik hugsaði ég: ,,Aldís...hvernig komstu inn í hjólageymsluna?"

Jújú...lyklarnir voru í skránni allan tímann!

Góð saga!

Aldís skrifaði sögu klukkan 20:36