<body><script type="text/javascript"> function setAttributeOnload(object, attribute, val) { if(window.addEventListener) { window.addEventListener('load', function(){ object[attribute] = val; }, false); } else { window.attachEvent('onload', function(){ object[attribute] = val; }); } } </script> <div id="navbar-iframe-container"></div> <script type="text/javascript" src="https://apis.google.com/js/platform.js"></script> <script type="text/javascript"> gapi.load("gapi.iframes:gapi.iframes.style.bubble", function() { if (gapi.iframes && gapi.iframes.getContext) { gapi.iframes.getContext().openChild({ url: 'https://www.blogger.com/navbar.g?targetBlogID\x3d6430580\x26blogName\x3dg%C3%B3%C3%B0saga\x26publishMode\x3dPUBLISH_MODE_BLOGSPOT\x26navbarType\x3dBLUE\x26layoutType\x3dCLASSIC\x26searchRoot\x3dhttps://godsaga.blogspot.com/search\x26blogLocale\x3dis_IS\x26v\x3d2\x26homepageUrl\x3dhttp://godsaga.blogspot.com/\x26vt\x3d34853674200258615', where: document.getElementById("navbar-iframe-container"), id: "navbar-iframe" }); } }); </script>

föstudagur, júní 6

Ómæj!

Þessa dagana gegni ég starfi afgreiðslustúlku í gluggatjaldaverslun í Faxafeni. Ég uni mér vel þar, enda hef ég tækifæri til að rækta miðaldra konuna innra með mér, öfugt við barnið sem hefur lagst í dvala. Yngsta konan sem vinnur með mér er 47 ára svo ég lækka meðalaldurinn umtalsvert í versluninni.

Dömurnar sem vinna með mér eru hver annari skemmtilegri en þó örlítið ruglaðar, það er að segja, þær ruglast stundum og segja ,,viltu raða í þurrkarann" í stað ,,viltu þurrka af" eða gera eins og ég og snúast í nokkra hringi áður en þær muna hvað það var sem þær voru að fara að gera. Þær hafa einnig, líkt og ég, unun af því að hafa hreint og fínt í kringum sig og sem dæmi má nefna eina sem hefur svo skemmtilegan enskan hreim (ekki breskan); hún vaknaði kl. 6 á þriðjudagsmorgni til að vera viss um að ná að þrífa ísskápinn sinn áður en hún mætti í vinnuna kl. 13:00 því hún átti von á gestum næstkomandi laugardag!!!

Ég er í stuttu máli mjög hamingjusöm í sumarjobbinu, enda ekki við öðru að búast þar sem ég fæ að virða fyrir mér fjölskrúðug gardínuefni alla daga og það er alltaf nóg af nammi í skúffunni.

Nóg um það í bili. Ég er orðin ansi utan við mig þar sem ég hef verið nokkuð dugleg í dagdraumunum (Þegar ég vinn í lottó ætla ég ...). Um daginn fór ég í Bónus eftir vinnu og ákvað að reiða hjólið mitt upp verstu brekkuna á leiðinni heim, þar sem ég er enn sem komið er ekki í standi til krafthjólreiða. Ég lét hugan reika allhressilega alla leiðina og var orðin svo utan við mig að ég var komin við hliðina á sjálfri mér.

Þegar ég var loks komin á leiðarenda opnaði ég hjólageymsluna, lagði frá mér pokann og ætlaði að læsa hjólinu mínu. Ég var ekki lengi að átta mig á því að ég þyrfti þess ekki þar sem ég legg alltaf drossíunni í læstri hjólageymslu. En viti menn; í þann mund sem ég ætlaði að sækja lyklana mína í vasann áttaði ég mig á því að þeir voru ekki á sínum stað. Við tóku þó nokkrar angistarfullar mínútur þar sem ég leitaði ítrekað í vösunum og hvolfdi úr töskunni og pokanum í árangurslausri leit að lyklunum.

Þegar ég hafði áttað mig á því að ég hafði hvergi lykla í fórum mínum var ég farin að halda að ég hefði misst þá á leiðinni heim. Ég var ansi spæld, enda gat ég hugsað mér margt betra við tímann að gera en að leita að lyklum við Miklubrautina og ekki var skárra að ég átti ekki von á Jóhanni fyrr en eftir tvo tíma til að hleypa mér inn.

Ég herti upp hugann og lagði pokann minn á bak við hurð. Þegar ég var að fara að reiða hjólið mitt út á nýjan leik hugsaði ég: ,,Aldís...hvernig komstu inn í hjólageymsluna?"

Jújú...lyklarnir voru í skránni allan tímann!

Góð saga!

Aldís skrifaði sögu klukkan 20:36

laugardagur, desember 1

Siðfræði, smiðfræði

æjæjæ...prófin í Kennó! Segi ekki meira.

Þegar ég lít yfir þetta merka blogg ég að ég er ansi gjörn á að blogga bara í prófatíð. Hver veit nema ég bloggi næst í maí?

Vera rifjaði upp eina góða stund ekki fyrir svo löngu. Við vorum staddar í París í skólaferðalagi í 10. bekk og vorum á leið heim. Við ferðuðumst milli terminala með terminal rútu á flugvellinum. Allt í einu fór Ásta Björk að haga sér ansi undarlega og kallar upp yfir sig:

Vera! dagur múrmeldýrsins, DAGUR MÚRMELDÝRSINS!

Henni tókst að lokum að vekja athygli okkar allra á því að í rútunni var einn samferðafélaga okkar engin önnur en hin rómaða Andy McDovell.

Góð saga!

En hvað haldið þið?

Ég fór ásamt félögum mínum í stúdentaráði í hópeflis-sumarbústaðarferð um daginn. Margt var um manninn og teknir nokkrir góðir blúsar við undirleik munnhörpu og gítars. Birna hópeflisstjóri skikkaði okkur til að fara í ansi skemmtilegan leik. Hann hófst með því að hvert okkar skrifaði á miða eftirminnilegt atvik úr okkar lífi. Sagan frá París var mér fersk í minni og því skrifaði ég á miðann minn:

Þegar við vorum í terminal rútu í París og Andy McDovell var með okkur í rútunni og Ásta kallaði: Dagur múrmeldýrsins!

Til að gera stutta sögu skemmtilegri er rétt að segja frá því hvernig leikurinn hélt áfram.

Við settum miðana okkar í körfu, rugluðum þeim og drógum einn miða á mann. Birna sagði okkur því næst að stíga á stokk og leika minninguna sem við höfðum í höndum okkar án orða.

Ég held að ég hafi aldrei hlegið jafn mikið og þegar Elvar reyndi að leika dag múrmeldýrsins án hljóða.

Góð saga!

Að öðrum málum:

Karókíklúbbsins var sárt saknað á síðasta karókíkvöldi. Samnemendum mínum fannst ég hafa snuðað þá um að fá að bera þá meðlimi augum sem gátu ekki mætt í fyrra sökum þess að þeir höfðu haldið í víking.

Svei og sveiattan. Taki þeir til sín sem eiga!

Takk fyrir mig, heyrumst í maí?

Eru einhverjir lesendur? Hvar er lífið? Hvar er falska gamla fjögurra gata flautan mín?

Aldís skrifaði sögu klukkan 21:03

fimmtudagur, maí 10

Gleðilegt Eurovision!

Pápi minn spurði systur mína Þórdísi hvort hún hefði lært í gær. Þórdís svaraði og sagði: Já, ég er búin að læra Íslensku. Þá sagði ég: ,,Og kanntu Íslensku núna?"

Daman svaraði um hæl: ,,Já, ég kann hana reiðbrennandi".

Þetta þótti mér æði fyndið og varð hugsað til þess þegar Vala mín hélt því fram að Móðurharðindin (Móðuharðindin) miklu á Íslandi hefðu verið tími þegar mæður á Íslandi áttu sem erfiðast uppdráttar.

Góð saga!

Ef Eiríkur hauksson væri með bleikt hár væri slagorðið hans: ,,Áfram Eiki Bleiki!".

Aldís skrifaði sögu klukkan 13:07

miðvikudagur, desember 13

Sárt saknað

Ég sat á kaffihúsi í hádeginu með bekkjarsystrum mínum og gæddi mér á blómkálssúpu.
Ég átti ansi erfitt með að komast að í slúðurhríðinni hjá stelpunum. Ég sat stillt, prúð og þolinmóð þangað til ég komst loksins að á mælendaskrá. Mér varð svo um og ó að ég skellti hnefanum, ekki í borðið, heldur í skeiðina mína og sletti yfir mig alla hressilegu magni af súpu. Ég sat þarna útötuð frá hársverði til táa (og eflaust manneskjan á bak við mig líka) og spurði sjálfa mig í hljóði:

Hver er með bláu pallíettu-blóma-hárspennuna mína?

Góð spurning!

Aldís skrifaði sögu klukkan 16:23

þriðjudagur, nóvember 7

Bíóstjörnur

Langt síðan síðast?

Já.

Ég fór í bíó um daginn. Ég var greinilega ekki sú eina sem fékk þá frábæru hugmynd að fara á myndina Borat, fyrir 900 kr. Það kostar 900 kr. í bíó, þessvegna eru allar myndir geðveikt góðar. Ég veit að þið, kæru lesendur, eruð sammála mér.

Enginn hefur þó fengið sömu menningarlegu upplifun og ég þennan umrædda dag í Laugarásbíói.

Best að byrja að koma ykkur í aðstæðurnar, ef þetta skyldi vera ,,þú þurftir að vera þarna"góð saga. 1,2 og byrja:
Ég sat í sætinu, ekki með popp.
Jóhann sat mér á vinstri hönd, kápan mín var mér til hægri.
12-13 ára guttar sátu fyrir aftan mig.

Ég sat, stillt og prúð, á meðan gæjarnir á bak við mig voru allir á iði og rákust ítrekað í sætið mitt. Fyrst var þetta pínu gaman. Þar sem myndin var ekki byrjuð, lokaði ég augunum og ímyndaði mér að ég sæti í rússíbana. Síðan var þetta ekki gaman lengur og í þann mund sem myndin hófst, sneri ég mér við, horfði blíðum augum á drengina og sagði eins ljúfmannlega og mér var unnt:

,,Strákar, þið rekist í sætið mitt. Viljiði passa ykkur á því. Takk".

Eftir smástund var kastað í mig einu poppi.

Góð saga!

Aldís skrifaði sögu klukkan 19:01

laugardagur, júlí 8

Je beibís.

Ég er nýkomin heim frá Danmörku. Það er ekkert rosalega merkilegt, ég var alltaf sveitt og ég sá Bob Dylan. Hann er svo gamall að ég hélt að hann mundi deyja á sviðinu. Ég hefði fegin viljað sjá Bob Saget í staðinn.

Það er merkilegra að segja frá því þegar ég mælti mér mót við Erluna mína á Norreport. Við stóðum sitthvoru megin við götuna í hálftíma áður en við sáum hvora aðra. Erla nennti ekki að koma með mér í strætó en þar missti hún af lestinni, þ.e.a.s. skemmti-lestinni. Þessi strætóferð var sú skemmtilegasta í heimi.

Vagninn fylltist af fólki á stöðinni minni. Strætóbílstjórinn byrjaði allt í einu að tala í kallkerfið: ,,Góðir farþegar, þetta er bílstjórinn ykkar Knut Hansen sem talar. Við erum lögð af stað upp Norrebrogade á 20 km hraða og mun ferðin aukast eftir hverja stoppistöð".

Þá fóru allir í strætó að hlægja og þegar við keyrðum brúna yfir vatnið þá hélt gæjinn áfram: ,,Ef þið horfið yfir vatnið á vinstri hönd, sjáið þið gullfallegann sólarglampann á vatninu, horfið aðeins lengra þá er þar runni, grænt hús og svo blátt hús, þar býr móðir mín".

Þetta fannst mér og ferðafélögum agalega fyndið. Ekki lét vagnstjórinn þar við sitja, hélt áfram og benti okkur á Kebab stað sem hann hafði farið á og fengið miður góðann mat. Við áttum að gjöra svo velsniðganga þann stað.

Arabi fór inn í vagninn meðan hann stóð í hávaða rifrildi við vinn sinn á götunni á arabísku. Allir í strætó fylgdust með, bílstjórinn beið þar til þeir höfðu lokið sér af, lokaði hurðinni og kallaði upp: ,,Við þökkum þeim fyrir gott innlegg".

Hann lét okkur einnig vita af því að þó þessi vagn þætti ekki ýkja merkilegur þar sem hann áði ekki á Kastrup, hefði hann hug á að keyra fram og til baka þessa götu allann daginn, halda uppi góðri stemmningu og bað okkur vel að njóta. Þá hugsaði ég með mér að ég hefði ekkert mikið betra að gera þennann seinasta dag í Kaupmannahöfn og gæti allt eins verið í strætó nokkrar ferðir í viðbót. Svo hugsaði ég: ,,Nei..." og fór út.

Góð saga!

Sama kvöld og þessi skemmtiferð átti sér stað fór ég með Erlu á Hjálma tónleika í Kristianíu. Áður en við fórum inn hittum við fyrir nokkra vini hennar, þar á meðal Eddý sem hafi góða sögu að segja. Ég tek mér það bessaleifi að hafa hana hér eftir:

Hún stóð einu sinni í röð fyrir utan Hverfisbarinn, sem hún fer ekki oft á, og var búin að bíða frekar lengi. Allt í einu treður stelpa sér fyrir framan hana. Eddý er eðlilega ekki sátt við það og lætur hana vita að hún sjálf hafi þegar beðið í 20 mínútur í röðinni og að þessi stelpa geti pillað sér aftast í röðina eins og hinir. Stelpan fer að ybba gogg á móti þar til Eddý verður mjög pirruð og segir: ,,Oh, ég þoli ekki þegar tíundu-bekkja smástelpur troða sér í raðir og þykjast vera e-ð." Stelpan varð sármóðguð en svarar um hæl kumpánleg á svipinn: ,,Farðu í ljós albínóinn þinn".

Góð saga!

Aldís skrifaði sögu klukkan 13:25

laugardagur, mars 4

Erfiðir tímar

Seinasta vika var úff!

Ég tók á móti Ronju Ræningjadóttur í Ævintýralandi og fylgdi henni niður á svið í Kringlunni. Þar steig ég galvösk á stökk og kynnti hana, hún söng lagið sitt og síðan stjórnaði ég æsispennandi leik sem felst í því að slá köttinn úr tunnunni.

Þessi stjórnun fór þannig fram að ég tók á móti börnum úr röðinni, hverju á eftir öðru og spurði þau að nafni. Til að gera langa sögu stutta sagði ég: ,,Hvað heitir þú? Gjörðu svo vel. Hvað heitir þú? Gjörðu svo vel." í 10 mínútur.

En nú skal vikið að sögu dagsins:

Ég fór í ræstipróf í skólanum um daginn, Hússtjórnarskólanum og ég þurfti m.a. að skúra. Það þykir ekki beint í frásögur færandi nema hvað, prófdómarinn okkar heitir Dómhildur.

Dómhildur! En ótrúlega Andrésar Andar-legt!

Góð saga!

Aldís skrifaði sögu klukkan 18:38